Ellen Geirsdóttir Håkansson
Bandaríski blaðamaðurinn Evan Gershkovich og Paul Whelan, fyrrverandi liðsmaður bandaríska sjóhersins, voru hluti af umfangsmiklum fangaskiptum Bandaríkjanna og Rússlands sem hafa nú þegar farið fram í Tyrklandi í dag.
Eru Gershkovich og Whelan sagðir hluti af 26 manna hópi sem var hluti af fangaskiptunum.
Tíu fangar hafi verið fluttir til Rússlands, 13 til Þýskalands og þrír til Bandaríkjanna en Tyrkir voru milliliðir í aðgerðinni.
Gershkovich, sem er 32 ára gamall, var sakaður um að hafa verið að afla sér upplýsinga um framleiðslu og starfsemi hergagnaverksmiðjunnar Uralvagonzavod í Úralfjöllum.
Hann hlaut 16 ára dóm fyrir njósnir en rússnesk yfirvöld sökuðu hann um að vinna fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA.
Whelan var handtekinn 2018, sakaður um njósnir og dæmdur til 16 ára fangelsisvistar árið 2020. Hann var sakaður um að hafa verið með ríkisleyndarmál í fórum sínum en hann var með USB-lykil á sér þegar hann var handtekinn.
Sagt er að á honum hafi fundist viðkvæmar upplýsingar, þar á meðal listi yfir nöfn sem einhverra hluta vegna áttu að fara leynt.