Úkraínumenn tilkynntu í dag að þeir hefðu tekið á móti líkum 250 fallinna hermanna í einum stærstu skiptum líkamsleifa síðan Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.
Báðir aðilar skiptast reglulega á líkum hermanna sem og handteknum stríðsföngum sem er samkvæmt sjaldgæfum diplómatískum samningum milli Moskvu og Kænugarðs.
Samhæfingarmiðstöð í Kænugarði sem fer fyrir meðferð stríðsfanga sendi frá sér yfirlýsingu að þessu tilefni:
„Sem afleiðing af heimflutningsaðgerðum voru lík 250 fallinna úkraínskra varnarmanna skilað til Úkraínu. Þetta er ein stærsta aðgerð sinnar tegundar,“ sagði Petró Jatsenkó, talsmaður miðstöðvarinnar, við AFP.
Stjórnvöld í Kænugarði sögðust hafa afhent líkamsleifar 38 rússneskra hermanna samkvæmt samkomulaginu, sem Alþjóða Rauði krossinn hafði milligöngu um.
DNA-greining verður notuð til að bera kennsl á líkin áður en þau eru látin í vörslu fjölskyldnanna fyrir útfararathafnir og greftrun.
Sumir þeirra sem sneru til baka voru úkraínskir hermenn sem höfðu barist í hafnarborginni Maríupol í suðurhluta landsins, sem var að fullu hernumin í maí 2022 af rússneskum hersveitum eftir hart umsátur.