Maduro ekki réttur sigurvegari að sögn Blinken

Antony Blinken segir González augljóslega hafa hlotið meirihluta atkvæða.
Antony Blinken segir González augljóslega hafa hlotið meirihluta atkvæða. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir sterk sönnunargögn fyrir því að Nicolás Maduro sé ekki réttur sigurvegari í nýliðnum forsetakosningum í Venesúela.

Mikil upplausn ríkir í landinu í kjölfar kosninganna en Maduro hefur lýst yfir sigri í kosningunum þvert á það sem út­göngu­spár og skoðanakann­an­ir bentu til.

„Í ljósi yfirgnæfandi sönnunargagna er það Bandaríkjunum og ekki síst fólkinu í Venesúela ljóst að Edmundo González Urrutia hlaut flest atkvæði í forsetakosningunum Venesúela þann 28. júlí,“ sagði Blinken. 

Íbúar Venesúela hafa mótmælt niðurstöðunum og hefur fjöldi fólks verið …
Íbúar Venesúela hafa mótmælt niðurstöðunum og hefur fjöldi fólks verið handtekinn. AFP

Fleiri dregið niðurstöðurnar í efa

Leiðtogar Suður-Ameríkuríkja á borð við Brasilíu, Mexíkó og Kólumbíu hafa hvatt yfirvöld í Venesúela til að birta öll gögn í tengslum við kosningarnar. Kína, Rússland og Íran hafa viðurkennt niðurstöðurnar og óskað Maduro til hamingju með sigurinn.

Síðasta sunnudag tilkynnti landskjörstjórn Venesúela, sem ein­ung­is er skipuð sam­flokks­mönn­um Maduros, að Maduro hefði sigrað kosningarnar og myndi því sitja sitt þriðja kjörtímabil. Var niðurstöðunum strax mótmælt af stjórnarandstöðunni með vísan í kvittanir úr rafrænum kosningavélum sem þau höfðu aðgengi að.

Hafa íbúar Venesúela haldið á götur út í kjölfarið til að mótmæla niðurstöðunum, en margir segja kosningunum hafa verið stolið.

Fjöldi fólks hefur verið handtekinn fyrir borgaralega óhlýðni. Maria Cor­ina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur farið í felur og kveðst óttast um líf sitt vegna valda Maduros. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert