Navalní átti að vera hluti af fangaskiptunum

Alexei Navalní lést í rússnesku fangelsi.
Alexei Navalní lést í rússnesku fangelsi. AFP

Á sama tíma og mikill fögnuður ríkir vestanhafs í kjölfar umfangsmikilla fangaskipta þá er ein eftirsjá.

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní átti að vera hluti af fangaskiptunum áður en hann lést í rússneskri fanganýlendu í Síberíu.

„Við höfðum verið að vinna að samningi [fangaskiptum] með bandamönnum okkar sem Alexei Navalní hefði verið hluti af, en því miður lést hann,“ sagði Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Bidens Bandaríkjaforseta.

Navalní átti að vera hluti af fangaskiptunum í gær sem voru þau stærstu á milli Vest­ur­landa og Rúss­lands frá tím­um kalda stríðsins. Rúss­ar slepptu sex­tán úr haldi gegn því að fá tíu til baka.

Navalní var áhrifamesti stjórnarandstæðingurinn í Rússlandi fyrir andlát sitt.
Navalní var áhrifamesti stjórnarandstæðingurinn í Rússlandi fyrir andlát sitt. AFP/Alexander Nemenov

Sagði að hann væri til í að sleppa Navalní

Vladimír Pútín Rúss­lands­for­seti sagði í mars, í kjölfar andláts Navalnís, að hann hefði verið reiðubú­inn til þess að láta Navalní laus­an úr fang­elsi í fanga­skipt­um við Vest­ur­veld­in.

„Nokkr­um dög­um fyr­ir and­lát herra Navalnís, bar sam­starfs­fólk mitt und­ir mig þá hug­mynd að láta Navalní laus­an í staðinn fyr­ir ein­hvern sem er í fang­elsi á Vest­ur­lönd­um. Ég sagðist vera sam­mála þeirri hug­mynd,“ sagði Pútín í mars.

Yulie Navaln­ía, ekkja Navalnís, sagði í kjölfar andlátsins að Pútín hefði drepið Navalní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka