Á sama tíma og mikill fögnuður ríkir vestanhafs í kjölfar umfangsmikilla fangaskipta þá er ein eftirsjá.
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní átti að vera hluti af fangaskiptunum áður en hann lést í rússneskri fanganýlendu í Síberíu.
„Við höfðum verið að vinna að samningi [fangaskiptum] með bandamönnum okkar sem Alexei Navalní hefði verið hluti af, en því miður lést hann,“ sagði Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Bidens Bandaríkjaforseta.
Navalní átti að vera hluti af fangaskiptunum í gær sem voru þau stærstu á milli Vesturlanda og Rússlands frá tímum kalda stríðsins. Rússar slepptu sextán úr haldi gegn því að fá tíu til baka.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í mars, í kjölfar andláts Navalnís, að hann hefði verið reiðubúinn til þess að láta Navalní lausan úr fangelsi í fangaskiptum við Vesturveldin.
„Nokkrum dögum fyrir andlát herra Navalnís, bar samstarfsfólk mitt undir mig þá hugmynd að láta Navalní lausan í staðinn fyrir einhvern sem er í fangelsi á Vesturlöndum. Ég sagðist vera sammála þeirri hugmynd,“ sagði Pútín í mars.
Yulie Navalnía, ekkja Navalnís, sagði í kjölfar andlátsins að Pútín hefði drepið Navalní.