Nýr forseti Finnlands: Þurfum brátt að hefja friðarviðræður

Al­ex­and­er Stubb var kjörinn forseti Finnlands í febrúar.
Al­ex­and­er Stubb var kjörinn forseti Finnlands í febrúar. AFP

Alexander Stubb Finnlandsforseti segir að friðarviðræður verði að brátt að hefjast á milli Úkraínu og Rússa. Stubb, sem hefur verið sterkur stuðningsmaður Úkraínumanna, telur að afturköllun rússneskra hermanna úr Úkraínu þurfi ekki að vera skilyrði viðræðnanna.

Hinn 56 ára Alexander Stubb var kjörinn forseti Finnlands í febrúar en hann er fyrr­ver­andi forsætisráðherra úr íhaldsflokknum.

Stubb hefur verið ötull stuðningsmaður Úkraínumanna en innrás Rússa í Úkraínu var eitt stærsta umræðuefnið í síðustu forsetakosningum í Finnlandi enda eiga Finnar landamæri að Rússlandi.

„Við erum að nálgast stað þar sem friðarviðræður verða að hefjast,“ segir hann í viðtali við franska dagblaðið Le Monde en Stubb en miðillinn náði tali af honum þar sem hann fylgist með Ólympíuleikunum í París.

Fjórir þættir

„Við verðum að greina á milli hugsanlegs umræðuferlis, sem er engin endalok í sjálfu sér, og friðar. Að hefja samningaviðræður þýðir ekki að þú ætlir að gefa eftir,“ svarar hann spurður út í möguleika á friðarviðræðum.

„Selenskí þarf fjóra þætti til að þetta ferli gangi vel,“ segir hann um forseta Úkraínu og útskýrir:

„Sá fyrsti varðar þau svæði sem Rússar hafa nú lagt undir sig og þetta mun vera ákvörðun sem hann einn getur tekið. Næst þarf Úkraína að tryggja öryggi. Og þarna getum við hjálpað með tvíhliða samningum og mögulega með aðild að NATO, og auðvitað að Evrópusambandinu [ESB]. Í þriðja lagi er réttlæti nauðsynlegt til að lögsækja rússneska stríðsglæpamenn. Að lokum þarf Selenskí að fá stuðning við að endurreisa land sitt.“

Ættu Rússar að draga hermenn sína til baka?

„Frá okkar sjónarhorni er leiðin að friði skýr: Rússar verða að draga sig til baka. En við getum ekki sett það sem skilyrði. Við verðum að sannfæra hnattræna suðrið um að það sem Rússar eru að gera teljist til heimsvaldastefnu. Það er þeim í hag að stöðva þessi átök. Ef Xi Jinping [forseti Kína] vildi virkilega stöðva stríðið myndi hann hringja í Pútín og segja „Þetta er nóg komið!“ Kína gæti gert margt til að stöðva orrustuna vegna þess að það er í sterkri stöðu andspænis Rússum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert