Tveir greindir með apabólu

Útbreiðsla apabólu í Afríku veldur áhyggjum.
Útbreiðsla apabólu í Afríku veldur áhyggjum. AFP

Lítið hefur heyrst af apabólu, eða mpox, frá árinu 2022 en í dag greindust tveir með veirusjúkdóminn í Úganda og hefur Afríkubandalagið lagt rúmar tíu milljónir bandaríkjadala til að koma í veg fyrir faraldur.

Eftirlit er nú með níu manns sem hafa verið í návist þeirra smituðu.

Tilfellin tvö greindust í Kasese-héraðinu við vesturlandamæri landsins, en talið er að einstaklingarnir hafi ekki sýkst í Úganda, heldur í nágrannaríkinu Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

11 þúsund manns sýktir

Þess má geta að í júlímánuði voru fjögur tilfelli apabólu staðfest í öðrum Afríkuríkjum, en í Kenía greindist einn og í Búrúndí greindust þrír. Gerðu þá yfirvöld Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó ráð fyrir að meira en 11.000 manns væru sýktir af apabólu þarlendis og að 450 dauðsföll mætti rekja til sjúkdómsins.

Afríkubandalagið hefur brugðist við útbreiðslu sjúkdómsins og renna nú rúmar tíu milljónir bandaríkjadala í ýmsar forvarnir.

Með fjármagninu er meðal annars gert ráð fyrir að hægt verði að auka eftirlit með sýkingum, fjölga prófunum og auka aðgengi að bóluefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka