Tveir stungnir til bana nærri Tel Avív

Árásin átti sér stað í Holon–hverfi í suðurhluta Tel Avív.
Árásin átti sér stað í Holon–hverfi í suðurhluta Tel Avív. AFP/Gil Cohen-Magen

Tveir eru látnir og tveir særðust í hnífstunguárás nærri Tel Avív í Ísrael. Palestínumaður, sem grunaður er um verknaðinn, var „tekinn úr umferð“ og lést á sjúkrahúsi, að sögn Ísraelsmanna. 

Í yfirlýsingu sagði að „hryðjuverkaárásin“ átti sér stað á nokkrum stöðum í Holon–hverfi í suðurhluta Tel Avív. 

Árásarmaðurinn var frá Vesturbakkanum. Hann var „tekinn úr umferð“ af lögreglumanni og úrskurðaður látinn er hann kom á sjúkrahús. 

66 ára gömul kona og maður um áttrætt létust af sárum sínum stuttu eftir árásina. Ísraelskir miðlar greina frá því að parið var gift. 

Tveir karlmenn til viðbótar særðust. 68 ára gamall karlmaður er alvarlega særður og 26 ára maður hlaut minniháttar meiðsl.

Hvetur Ísraelsmenn til að bera vopn

Itamar Ben-Gvir, öryggismálaráðherra Ísrael, heimsótti vettvang í gær og sagði blaðamönnum að: „Stríðið okkar er ekki einungis gegn Íran, heldur einnig hér á götum okkar.“

„Þess vegna höfum við gefið meira en 150 þúsund Ísraelsmönnum byssuleyfi,“ sagði Ben-Gvir og hvatti Ísraelsbúa til að bera vopn. 

Itamar Ben-Gvir, öryggismálaráðherra Ísrael, heimsótti vettvang í gær.
Itamar Ben-Gvir, öryggismálaráðherra Ísrael, heimsótti vettvang í gær. AFP/Gil Cohen-Magen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert