Úkraínski flugherinn hefur nú formlega fengið afhentar fyrstu F-16-orrustuþoturnar. Frá þessu greindi Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fyrr í dag. Þoturnar koma frá Bandaríkjunum, Hollandi og Danmörku og þakkaði Selenskí, leiðtogum ríkjanna sérstaklega fyrir þann stuðninginn.
Í ávarpi Selenskí kom ekki fram hve margar þoturnar væru, en koma þeirra markar mikilvægan áfanga í að efla getu flughers Úkraínu, sem byggir að mestu leyti á gömlum þotum frá tímum Sovétríkjanna.
Því hafa NATO-ríki heitið Úkraínumönnum um 65 orrustuþotum, og munu þær vera notaðar samhliða eldflaugavarnarkerfum á borð við Patriot og NASAM, sem Vesturlönd hafa þegar úthlutað Úkraínumönnum.
Stjórnvöld í Kænugarði bera miklar vonir til þess að þoturnar komi til með að breyta framgangi stríðsins, en rússneskar orrustuþotur hafa hingað til verið í yfirburðarstöðu í úkraínskri lofthelgi.
Rússnesk stjórnvöld hafa þó lítið beitt þeim í beinum árásum, af ótta við það að þær verði skotnar niður, en Úkraínumenn búa yfir háþróuðum varnakerfum frá Vesturlöndum.
Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hafa úkraínsk stjórnvöld einnig viðrað hugmyndir um það að hluti F-16-vélanna verði geymdar í erlendum herstöðvum utan Úkraínu.
Sú tillaga varð til þess að Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, varaði sérstaklega við því að allar vestrænar herstöðvar sem geymdu úkraínskar þotur yrðu lögmætt hernaðarlegt skotmark Rússlands.