Google tapar stóru einokunarmáli

Leitarvél Google.
Leitarvél Google. AFP

Bandarískur alríkisdómari úrskurðaði fyrr í dag að bandaríski tæknirisinn Google væri í einokunarstöðu, og að markaðsstaða fyrirtækisins bryti þar með gegn bandarískum samkeppnislögum.

Financial Times greinir frá.

Niðurstaða dómsins er mikill tímamótasigur fyrir bandaríska dómsmálaráðuneytið sem hefur að undanförnu reynt eftir fremsta megni að koma höggi á stór bandarísk tæknifyrirtæki, sem að þeirra mati hafa sýnt einokunartilburði í samkeppni við aðra markaðsaðila.

Í dómnum sagði jafnframt að Google hefði með ólöglegum hætti viðhaldið einokunarstöðu sinni yfir leitarþjónustu og textaauglýsingum með sérstökum notkunarsamningum við önnur stórfyrirtæki á borð við Apple. Þar með væri neytendum gert erfitt fyrir í að velja aðrar leitarvélar en þær sem Google rekur. 

Fallast á rök dómsmálaráðuneytisins

Dómurinn féllst því að mörgu leyti á málsástæður dómsmálaráðuneytisins, en þær gengu út á að Google hefði greitt samstarfsfyrirtækjum sínum tugi milljarða dollara, með það fyrir augum að fæla þau frá viðskiptum við samkeppnisaðila, og að markaðshættir fyrirtækisins væru því í eðli sínu samkeppnishamlandi.

Google hefur þvert á móti borið fyrir sig þau rök að velgengni fyrirtækisins megi rekja til yfirburða fyrirtækisins í tækni, en það hefur einnig réttlætt samningana umdeildu á þeim forsendum að samkeppni í tæknigeiranum sé gríðarleg.

Ekki liggur fyrir hvort Google muni áfrýja niðurstöðunni. 

Uppfært klukkan 9.50:

Google ætlar að áfrýja úrskurðinum, að sögn forseta alþjóðamála fyrirtækisins, Kent Walker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert