Kveiktu í hótelum sem hælisleitendur dvöldu á

Mótmælendur í Nottingham.
Mótmælendur í Nottingham. AFP/Darren Staples

Boðað hefur verið til neyðarfundar í Downingstræti í dag vegna óeirðanna í Bretlandi. Um 150 manns voru handteknir um helgina. Kveikt var í tveimur hótelum í gærkvöldi þar sem hælisleitendur dvöldu. 

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sagði í sjónvarpsávarpi í gær að óeirðaseggirnir myndu sjá eftir verkum sínum.

Óeirðirnar hafa geisað víða um Bretland eftir árás sem varð þremur börnum að bana á miðvikudag í Southport. Óeirðirnar brutust út vegna upplýsingaóreiðu er varðaði árásarmanninn og beinast mótmælin gegn innflytjendum, og þá sérstaklega múslimum. 

BBC greinir frá því að neyðarfundurinn, sem nefnist „Cobra–fundur“, er fundur sérstakrar viðbragsnefndar sem samanstendur af ráðherrum, embættismönnum, lögreglu, leyniþjónustu og öðrum. 

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands. AFP/Henry Nicholls

Gestir „skelfingu lostnir“

Að minnsta kosti tíu lögreglumenn særðust í Rotherham í gærkvöldi eftir að um 700 mótmælendur brutust inn í hótel og kveiktu í ruslafötu. 

Mótmælendurnir köstuðu timbri og sprautuðu úr slökkviliðstækjum á lögregluna. 

Einn lögreglumaður missti meðvitund er hann fékk höfuðhögg og að minnsta kosti tveir aðrir hlutu beinbrot. 

Starfsmenn og gestir, sumir þeirra voru hælisleitendur, voru „skelfingu lostnir“ en engan sakaði, að sögn lögreglu. 

Oliver Coppard borgarstjóri sagði að 240 manns höfðu dvalið á hótelinu er árásin var gerð.

Hann sagði að allir hælisleitendurnir hefðu verið fluttir á öruggan stað. 

Óeirðaseggir brutust einnig inn í hótel í Tamworth. Einn lögreglumaður særðist er fólk braut rúður og kveikti í. 

Mótmælendur í Bristol.
Mótmælendur í Bristol. AFP/Justin Tallis
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert