UNRWA telur starfsmenn hafa átt aðild að árásinni

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu-þjóðanna.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu-þjóðanna. AFP

Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu í dag að níu starfsmenn Palestínuflótta­manna­hjálp­ar­inn­ar (UNRWA) hefðu „að öllum líkindum“ átt aðild að stórfelldri hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael, þann 7. október 2023, þar sem hátt í 1.200 voru myrtir, og á þriðja hundrað gísl­ar tekn­ir.

Haft er eftir Farhan Haw, talsmanni Sameinuðu þjóðanna, í frétt AFP-fréttastofunnar, að stofnunin hafi nú áreiðanleg gögn undir höndum sem sýni þetta, en starfsmennirnir níu hafa allir verið reknir frá stofnuninni. 

Í febrúar fyrr á þessu ári sögðust Ísraelar hafa sannanir fyrir því að starfsmenn UN­RWA hefðu tekið þátt í árás Hamas, en í kjölfarið frystu mörg ríki tímabundið fjárstuðning sinn til stofnunarinnar, þar á meðal íslensk stjórnvöld.

Mörg ríki hófu þó fjárstuðning sinn við UNRWA á ný eftir að rannsókn á ásökunum Ísraela hófst, en í júní á þessu ári tilkynnti Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, um að íslensk stjórnvöld myndu hækka fjárframlög til stofnunarinnar um 100 milljónir á þessu ári.

Samanlögð framlög Íslands til stofnunarinnar munu því nema um 290 milljónum króna í ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert