Ákvörðun Harris yfirvofandi

Harris ákveður sig í dag.
Harris ákveður sig í dag. AFP

Kamala Harris er formlega orðin forsetaframbjóðandi demókrata í komandi kosningum. Þetta varð ljóst í gær eftir að hún tryggði sér 99% atkvæða frá fulltrúum Demókrataflokksins.

Þá er búist við því að hún tilkynni varaforsetaefni sitt í dag og taki þá formlega á rás í kosningabaráttunni.

Atkvæðagreiðsla um tilnefningu Harris fór fram stafrænt í stað þess að hún færi fram í persónu á landsfundi demókrata þann 19. ágúst næstkomandi í Chicago. Var þetta meðal annars gert til þess að tryggja að nöfn frambjóðenda kæmust á kjörseðla í öllum ríkjum.

Tók einn dag að ná nauðsynlegum atkvæðum

Kosningin stóð yfir í fimm daga og voru 4.567 atkvæði í pottinum en eins og fyrr sagði tryggði Harris sér 99% þeirra.

Samkvæmt umfjöllun New York Times hófst kosningin á fimmtudagsmorgun og hafði Harris tryggt sér nauðsynlegt magn atkvæða um eftirmiðdag á föstudag.

Þá er búist við því að Harris tilkynni hver verði fyrir valinu sem varaforsetaefni hennar síðar í dag.

Líklegir eru taldir vera, meðal annarra, Josh Shapiro ríkisstjóri Pennsylvaníu, Tim Walz ríkisstjóri Minnesota og Andy Beshear ríkisstjóri Kentucky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert