Bæði Íran og Ísrael verða að draga úr spennu

Antony Blinken utanríkisráðherra í Maryland í kvöld.
Antony Blinken utanríkisráðherra í Maryland í kvöld. AFP/Chip Somodevilla

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í kvöld að bæði Íran og Ísrael verði að draga úr spennu í Mið-Austurlöndum og tryggja að átök á svæðinu magnist ekki. 

„Enginn ætti að magna þessi átök,“ sagði Blinken. „Við höfum rætt ýtarlega við við bandamenn okkar og komið þessum boðum á framfæri beint við Íran. Og við höfum komið þeim beint á framfæri við Ísrael,“ sagði Blinken á blaðamannafundi í Annapolis í Maryland í kvöld.

Íran hefur hótað viðbrögðum eftir að Ismail Haniyeh, stjórnmálaleiðtogi Hamas-samtakanna, var ráðinn af dögum í Teheran en talið er að Ísraelsmenn hafi verið þar að verki.

Blinken ræddi við blaðamenn eftir að hafa rætt við utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Ástralíu í Annapolis. Hann sagði að Bandaríkin ynnu hörðum höndum við að draga úr spennu í Mið-Austurlöndum og koma í veg fyrir að átökin breiðist út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert