Eiga skilið að fylgjast með réttarhöldum

Loyd Austin á blaðamannafundinum í kvöld.
Loyd Austin á blaðamannafundinum í kvöld. AFP/Chip Somodevilla

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í kvöld að ættingjar þeirra, sem létu lífið þegar flugvélum var flogið á turna World Trade Center í New York og Pentagon í Washington 11. september 2001, eigi rétt á því að þeir sem skipulögðu árásina verði sóttir til saka í réttarsal. 

Tilkynnt var að í lok júlí, að gert hefði verið samkomulag um að Khalid Sheikh Mohammed  og tveir samverkamenn hans, sem taldir eru hafa skipulagt hryðjuverkin, játuðu sök gegn því að sleppa við réttarhöld og dauðarefsingu. Samkomulagið vakti reiði meðal ættingja þeirra sem létu lífið í árásinni og Austin ógilti samkomulagið tveimur dögum síðar.

Austin sagði á blaðamannafundi í Annapolis í Maryland í kvöld, að fjölskyldur fórnarlambanna og bandarískur almenningur eigi skilið að fá tækifæri til að fylgjast með réttarhöldum í þessu máli. 

Sakborningarnir hafa verið í haldi í bandaríska herfangelsinu á Gantanamo-flóa í Kúbu í tvo áratugi. Lagaþrætur hafa tafið niðurstöðu máls þeirra en meðal annars hefur verið deilt um hvort þeir geti notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir rétti í ljósi þess að þeir sættu pyntingum í fangelsinu af hálfu bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Dómssátt hefði komið í veg fyrir að um þau mál yrði fjallað í réttarhöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert