Fyrrverandi forsætisráðherrann laus úr fangelsi

Khaleda Zia var fangesluð árið 2018 vegna meintrar spillingar. Þjóðfylkingin …
Khaleda Zia var fangesluð árið 2018 vegna meintrar spillingar. Þjóðfylkingin hefur haldið því fram að málið sé uppspuni yfirvalda í landinu. AFP

Mohammed Shahabuddin, forseti Bangladess, hefur fyrirskipað að Khaleda Zia, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu, verði látin laus.

Gerist þetta skömmu eftir að Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, flúði land til Indlands í kjölfar þess að hún sagði af sér í gær. Blóðug mótmæli hafa staðið yfir í Bangladess undanfarnar vikur.

„Hún er nú frelsuð,“ segir K.M Wahiduzzaman, talsmaður Þjóðflokksins í Bangladess, við AFP í dag. Stjórnarandstæðingurinn var fangelsaður árið 2018 vegna meintrar spillingar en Þjóðfylkingin hefur haldið því fram að málið sé uppspuni yfirvalda í landinu.

Forsetinn ákvað einnig að frelsa alla sem handteknir höfðu verið í mótmælum í landinu.

Herstjórn í landinu

Í gær tilkynnti herinn í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar að forsætisráðherrann hefði sagt af sér. Waker-uz-Zaman tilkynnti þar einnig að herinn myndi gegna hlutverki bráðabirgðaríkisstjórnar.

„Hverjar sem ykkar kröfur eru munum við uppfylla og endurheimta frið í landinu. Við biðjum ykkur um að hjálpa okkur í þessu og forðist ofbeldi.“

409 manns hafa látið lífið í blóðugum mótmælum sem haldin hafa verið víðs vegar um Bangladess síðustu tvær vikurnar, samkvæmt talningu AFP sem byggir á tölum frá yfirvöldum og sjúkrahúsum í landinu. Þar af létust 109 í gær.

Indversk stjórnvöld gáfu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem þau lýstu „þungum áhyggjum“ af ástandinu í landinu.

Kvótakerfið loks á útleið?

Náms­menn í Bangla­dess kröfðust þess að kvótakerfi stjórnvalda yrði lagt niður en ­kerfið veitir ákveðnum hóp­um samfé­lagsins greiðari aðgang að rúm­lega helm­ingi op­in­berra starfa.

Um 30% af þess­um eft­ir­sóttu störf­um eru ætluð ætt­ingj­um her­manna sem börðust í sjálf­stæðis­baráttu Bangla­dess gegn Pak­ist­an árið 1971.

„Búið er að frelsa okk­ur und­an ein­ræði. Þetta er Beng­al-upp­reisn, það sem við sáum árið 1971 og erum nú að sjá árið 2024,“ sagði hinn 21 árs Sazid Ahnaf við AFP í gær, er mótmælendur réðust inn í glæsihöll fyrrverandi forsætisráðherrans.

Marg­ir úr svo­kallaðri stjórn­málaelítu lands­ins eru skyld­ir þess­ari kyn­slóð, þar á meðal Sheikh Hasina for­sæt­is­ráðherra sem er dótt­ir sjálf­stæðis­hetj­unn­ar Sheikh Muji­b­ur Rahm­an, sem var myrt­ur árið 1975.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert