Segja palestínska fanga pyntaða

Átök hafa nú verið í tæpa 10 mánuði í Gasa …
Átök hafa nú verið í tæpa 10 mánuði í Gasa og valdið rúmlega 40.000 dauðsföllum. AFP

Ísraelsku mannréttindasamtökin B'Tselem segja þúsundir palestínskra fanga þola kerfisbundna misnotkun og pyntingar í ísraelskum fangelsum.

Í skýrslu frá samtökunum kemur fram að vitnisburðir frá fyrrverandi föngum sýni fram á „ómannúðlegar aðstæður“ og að þau hafi lýst ítrekuðu og grófu handahófskenndu ofbeldi, kynferðisofbeldi, niðurlægingu, vísvitandi sulti, þvinguðum óhreinlætislegum aðstæðum og svefnleysi.

„Vitnisburðirnir gáfu greinilega til kynna kerfisbundna stofnanastefnu sem beindist að stöðugri misnotkun og pyntingu allra palestínskra fanga í haldi Ísraels,“ stendur í skýrslu samtakanna.

Helmingur fanga handtekinn án dómsúrskurðar

Í skýrslunni kemur fram að fjöldi Palestínumanna í ísraelskum fangelsum og fangageymslum hafi tvöfaldast síðan 7. október en að þeir hafi verið 9.623 talsins í byrjun júlí. Næstum helmingur þeirra hafi verið handtekinn án dómsúrskurðar og án þess að hafa verið upplýstur um ásakanir á hendur þeim.

Í tilkynningu frá ísraelsku fangelsismálastofnuninni, sem rekur fangelsi í Ísrael, segir að allir fangar séu löglega í haldi og grunnréttindi þeirra séu að fullu tryggð af hæfum og faglegum fangavörðum og fangelsisstjórum. Einnig kemur fram að fangar eigi rétt á að leggja fram opinberar kvartanir.

„Ísraelsher hafnar alfarið ásökunum um kerfisbundið ofbeldi, þar með talið kynferðislegt ofbeldi, í fangageymslum sínum,“ segir í tilkynningunni en þar segir einnig að misnotkun á föngum sé ólögleg, andstæð leiðbeiningum hersins og stranglega bönnuð.

Palestínskir fangar sættu meðferð sem gæti jafnað pyntingar

Í síðustu viku kom fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að palestínskir fangar sættu meðferð sem gæti jafnast á við pyntingar.

Einnig varaði hópur sérfræðinga SÞ við „vaxandi beitingu pyntinga“ Ísraela gegn palestínskum föngum frá því stríðið á Gasa hófst í október sl.

Í síðasta mánuði tilkynnti Ísraelsher að níu hermenn þeirra væru í haldi vegna gruns um misnotkun á palestínskum fanga sem handteknir voru á Gasa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert