Tim Walz er varaforsetaefni Harris

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota, og Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og …
Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota, og Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi. AFP

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, hefur valið Tim Walz, ríkisstjóra Minnesotaríkis, sem varaforsetaefnið sitt í komandi kosningum.

Frá þessu greina miðlar vestan hafs, m.a. New York Times og  CNN, en Harris hef­ur boðað til kosn­inga­fund­ar í dag með varaforsetaefninu.

Þessar upplýsingar virðast hafa lekið til bandarískra fjölmiðla en Harris hafði upprunalega í hyggju að tilkynna um varaforsetaefnið í SMS-skilaboðum til stuðningsfólks. 

Repúblikanar „skrítnir“

Hinn sextugi Tim Walz er fyrrverandi menntaskólakennari og þjálfari í bandarískum fótbolta.

Walz var sennilega ekki efstur á blaði margra þegar kosningabarátta Harris hófst. En á síðustu dögum hefur orðræða hans um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, vakið mikla lukku meðal demókrata

Hann tók nefnilega nýlega upp á því að kallar repúblikana „skrítna“ og er þetta orðræða sem Harris hefur sjálf tekið upp í kosningabaráttu sinni.

Walz er nú á sínu öðru kjörtímabili sem ríkisstjóri en fyrir það hafði hann verið þingmaður í 12 ár, starfað í þjóðvarðarsveitum landsins í 24 ár og kennt í menntaskóla í Mankato í Minnesota.

Afglæpavæðing kanabiss, réttur til þungunarrofs og strangari vopnalöggjöf 

Sem ríkisstjóri hefur Walz undirritað lög er varða m.a. afglæpavæðingu kanabiss, rétt til þungunarrofs, rétt til fæðingarorlofs og strangari skotvopnalöggjöf.

Hann gefur samt sig út fyrir að vera ákveðinn sveitarstrák og getur hann því mögulega sótt fylgi til óráðinna kjósenda á landsbyggðinni, sem hafa á umliðnum árum kosið repúblikana í síauknum mæli. 

Meðal repúblikana er Walz þekktastur í tengslum við Black Lives Matters-mótmælin 2020, sem hófust eftir að George Floyd var myrtur af lögreglunni í Minneapolis í Minnesota. Repúblikanar hafa hraunað yfir Walz fyrir þær óeirðir sem urðu í mótmælunum og m.a. sagt hann ekki hafa tæklað mótmælin af nægilegum krafti, en mótmælendur kveiktu sumir í lögreglustöð og brutust inn í búðir í borginni.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert