Yahya Sinwar nýr stjórnmálaleiðtogi Hamas

Yahya Sinwar, er nýr stjórnmálaleiðtogi Hamas-samtakanna.
Yahya Sinwar, er nýr stjórnmálaleiðtogi Hamas-samtakanna. AFP

Hamas-samtökin hafa valið Yahya Sinwar sem nýjan stjórnmálaleiðtoga. Þetta kemur í kjölfar þess að Ismail Haniyeh, sem var stjórnmálaleiðtogi Hamas, var drepinn í loftárás Ísraela í Teheran, höfuðborg Írans, í síðustu viku. 

„Íslamska andspyrnuhreyfingin Hamas tilkynnir valið á leiðtoganum Yahya Sinwar sem yfirmann stjórnmálaskrifstofu hreyfingarinnar,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum. 

Alþjóðlegur hryðjuverkamaður

Sinwar fæddist árið 1962 í Khan Younis flóttamannabúðunum í suðurhluta Gasa. Hann er einn stofnanda al-Qassam herdeildanna og Majd, sem heldur utan um innri öryggismál hernaðarvængs Hamas á Gasasvæðinu.

Þá hefur hann farið með stjórn á Gasa síðan árið 2017. Hann hefur verið skilgreindur sem  alþjóðlegur hryðjuverkamaður af bandaríska utanríkisráðuneytinu síðan árið 2015 og er talinn vera einn skipuleggjanda árás Hamas á Ísrael þann 7. október.  

Hann var handtekinn af Ísraelsmönnum árið 1988 fyrir hryðjuverkastarfsemi og var í kjölfarið dæmdur í fjórfalda ævilanga fangelsisvist. Honum var hins vegar sleppt úr haldi þegar um eitt þúsund palestínskum arabískum Ísraelum var sleppt úr haldi í skiptum fyrir ísraelska hermanninn Gilad Shalit, sem Hamas hafði í haldi í fimm ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert