Breski götulistamaðurinn leyndardómsfulli Banksy gladdi aðdáendur sína í vikunni með því að mála þrjú listaverk á veggi í Lundúnum, öll af dýrum.
Ein geit birtist í Richmond í suðvesturhluta borgarinnar á mánudag, tveir fílar í Chelsea á þriðjudag og í dag voru þrír apar mættir á járnbrautarbrú.
Miklar vangaveltur eru um það meðal almennings hvernig túlka eigi verkin. Eru þau gagnrýni á óeirðirnar sem sett hafa svip sinn á Bretland undanfarna daga, eru þau til að sýna Palestínumönnum stuðning eða hugsanlega vísun í hlýnun andrúmsloftsins eða jafnvel Ólympíuleikana?
„Banksy er að reyna að fá okkur til að hugsa um umhverfisvandann sem ógnar í raun mannkyninu,“ sagði háskólaprófessorinn Fawaz Gerges við AFP-fréttastofuna þar sem hann stóð og virti fyrir sé apana.
Listamaðurinn sjálfur veitti engar útskýringar þegar hann lýsti því yfir á samfélagsmiðlinum Instagram að hann hefði málað verkin. Það sem er óvenjulegt er hvað þau hafa birst hratt en venjulega málar Banksy myndir með nokkurra mánaða millibili.