Mótmæla óeirðunum í Bretlandi

Fjöldi fólks hefur safnast saman í Walthamstow, í úthverfi Lundúna, …
Fjöldi fólks hefur safnast saman í Walthamstow, í úthverfi Lundúna, til að mótmæla óeirðunum. AFP/Benjamin Cremel

Þúsundir hafa safnast saman á götum í borgum á Englandi til að mótmæla óeirðunum sem hafa staðið þar yfir síðustu daga. Þjóðernissinnar hafa mótmælt innflytjendum, sérstaklega múslimum, og hafa brotist út miklar óeirðir.

Óeirðaseggir hafa kastað múrsteinum og blysum, ráðist á lögreglumenn, brotið rúður í bílum og heimilum. Þá hafa minnst tvö hótel, þar sem hælisleitendur var að finna, orðið fyrir barðinu á óeirðaseggjunum undanfarna viku. 

Fimm hundruð manns handteknir

Lögreglan í Bretlandi hefur handtekið tæplega fimm hundruð manns síðan að óeirðirnar brutust út og hefur Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, lýst því yfir að þeir verði sóttir til saka. 

Óeirðirnar tengjast upplýsingaóreiðu er varðar stunguárás sem var í Southport fyrir viku, þar sem þrjár ungar stúlkur létu lífið.  

Eftir stunguárásina fóru af stað flökkusögur um uppruna og trúarbrögð árásarmannsins, Axel Rudakubana, þar sem hann var sagður hælisleitandi og íslamstrúar. Hann er sonur innflytjenda frá Rúanda en er sjálfur breskur þegn, uppalinn í Cardiff í Wales

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert