Nóbelsverðlaunahafi leiðir Bangladess

Muhammad Yunus mun leiða bráðabirgðastjórn Bangladess og ber titilinn aðalráðgjafi.
Muhammad Yunus mun leiða bráðabirgðastjórn Bangladess og ber titilinn aðalráðgjafi. AFP

Muhammad Yunus mun leiða bráðabirgðastjórn Bangladess, en hann tekur við í kjölfar fjöldamótmæla sem neyddu Sheikh Hasina, fyrrverandi forsætisráðherra, til að flýja land. 

Hinn 84 ára Muhammad hefur hlotið Nóbelsverðlaun fyrir árangur sinn í örfjármögnun og er talinn hafa lyft milljónum upp úr fátækt í Suður-Asíu, en leiðtogar námsmanna hvöttu hann til leiðsagnar. 

Ákvörðunin um að skipa Muhammad Yunus í forsætisráðherrastólinn var tekin á fundi með Mohammad Shahabuddin forseta Bangladess, yfirmönnum hersins, sjóhers og flughers, svo og leiðtogum námsmanna. 

„Fljótleg myndun bráðabirgðastjórnar er nauðsynleg til að sigrast á þessu,“ segir í yfirlýsingu frá skrifstofu forsetans. 

Kallar á nýja kynslóð leiðtoga

Muhammad Yunus mun bera titilinn aðalráðgjafi, að sögn Haid Islam, eins af leiðtogum Students Against Discrimination sem var á fundinum. 

Haid lýsti fundinum sem „vel heppnuðum“, en hins vegar voru litlar upplýsingar veittar um fyrirhugaða ríkisstjórn, þar á meðal um hlutverk hersins. 

Muhammad er nú í Evrópu en mun snúa aftur til Bangladess á morgun, og sagðist hann í viðtali við fréttaveituna AFP vera reiðubúinn að leiða bráðabirgðastjórnina. 

Hann skrifaði nýlega í The Economist að hann vildi „tryggja að frjálsar og sanngjarnar kosningar yrðu haldnar innan nokkurra mánaða“ og kallaði á nýja kynslóð leiðtoga að stíga fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert