Úkraínuher sagður ráðast inn á rússneskt landsvæði

Rússnesk stjórnvöld segja að Úkraínumenn hafi varpað flugskeytum á borgaralega …
Rússnesk stjórnvöld segja að Úkraínumenn hafi varpað flugskeytum á borgaralega innviði. Skjáskot/Rússneska varnarmálaráðuneytið

Úkraínumenn og Rússar virðast nú heyja harða orrustu í Kúrsk-héraði í Rússlandi en þar eiga löndin landamæri að hvort öðru. Fimm borgarar eru sagðir látnir.

Bardagar hafa staðið þarna yfir frá því í gær en Rússar segja að þúsundir manns hafi flúið svæðið. Þeir saka Úkraínumenn um að ráðast á borgaralega innviði.

Stríðið í Úkraínu virðist með þessu hafa færst inn á rússneskt landsvæði og hefur það komið Rússum í opna skjöldu.

Rússneskir drónar ráðast á bifreiðar Úkraínuhers við Súdsja í Kúrsk.
Rússneskir drónar ráðast á bifreiðar Úkraínuhers við Súdsja í Kúrsk. Skjáskot/Rússneska varnarmálaráðuneytið

Meiriháttar „ögrun“

Úkraínumenn hafa reyndar ekki lýst yfir ábyrgð á innrásinni, sem er sú alvarlegasta á síðustu mánuðum, en heimildarmaður AFP í öryggisþjónustu Úkraínu segir að úkraínskur dróni hafi skotið niður þyrlu yfir Kúrsk nýlega.

„Eins og þið vitið, hefur ríkisstjórnin í Kænugarði tekið sér stórfellda ögrun fyrir hendur,“ sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi með öryggisþjónustunni sem sýndur var í beinni útsendingu í dag.

„Hún skýtur af handahófi með hinum ýmsu vopnum, þar á meðal flugskeytum, á borgaralegar byggingar, íbúðahúsnæði og sjúkraflutningabíla.“

Rússar segjast hafa náð tökum á ástandinu í Kúrsk.
Rússar segjast hafa náð tökum á ástandinu í Kúrsk. Ljósmynd/Rússneska varnarmálaráðuneytið

Fimm sagðir látnir

Mörg þúsund manns hafa flúið Kúrsk vegna bardaganna, að sögn rússneskra yfirvalda.

Áhlaupið hófst í gærmorgun en þá tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið að Rússaher hefði náð að hrekja á brott úkraínska hermenn sem réðust inn í héraðið.

Í það minnsta fimm óbreyttir borgarar eru látnir frá því að bardagar hófust, að sögn rússneskra stjórnvalda. Þá séu 24 særðir, þar af þrettán á sjúkrahúsi.

Alexei Smírnov héraðsstjóri segir að yfirvöld hafi náð tökum á ástandinu.

Klukkan 9.30 í morgun sagði varnarmálaráðuneyti Rússa að búið væri að koma í veg fyrir að Úkraínumenn kæmust lengra inn á rússneskt landsvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert