Krefst skýringa á hvarfi Puigdemonts

Carles Puigdemont, fyrrverandi leiðtogi Katalóníu, birtist fyrirvaralaust í Barcelona þar …
Carles Puigdemont, fyrrverandi leiðtogi Katalóníu, birtist fyrirvaralaust í Barcelona þar sem hann flutti ávarp áður en hann lét sig hverfa á ný. AFP

Spænski hæstaréttardómarinn Pablo Llarena krefur lögreglu og stjórnvöld skýringa á því hvernig það hafi mátt vera að katalónska aðskilnaðarsinnanum Carles Puigdemont auðnaðist að snúa aftur til Spánar þrátt fyrir handtökuskipun auk þess að hverfa sporlaust eftir að hafa ávarpað þúsundir áheyrenda á katalónska þinginu í Barcelona.

Puigdemont flúði land skömmu eftir að hann gerði misheppnaða tilraun til að gera Katalóníu, sjálfstjórnarhérað á Norðaustur-Spáni, sjálfstæða með allsherjaratkvæðagreiðslu sem dómstólar höfðu áður úrskurðað ólögmæta. Hefur þessi fyrrverandi leiðtogi héraðsins síðan haldið til í Belgíu og Frakklandi.

Gert hafði verið ráð fyrir að Puigdemont reyndi að ávarpa þingið með það fyrir augum að knýja fram atkvæðagreiðslu um nýjan leiðtoga Katalóníu.

Sagður hafa flúið land á ný

Ekki varð af atkvæðagreiðslunni en Puigdemont, sem er rúmlega sextugur blaðamaður og stjórnmálamaður, er talinn hafa notið aðstoðar tveggja lögregluþjóna úr katalónsku lögreglunni Mossos d' Esquadra til að koma sér undan og hafa þeir verið handteknir.

Hæstaréttardómarinn Llarena hefur enn fremur sent spænska innanríkisráðuneytinu fyrirspurn um ítarlega áætlun þess um að handtaka Puigdemont þegar er hann kæmi að spænsku landamærunum, en ekkert varð af þeirri handtöku þegar leiðtoginn fyrrverandi sneri úr útlegð sinni í Frakklandi.

Gonzalo Boye lögmaður Puigdemonts sagði í viðtali við katalónska útvarpið í dag að skjólstæðingur hans hefði flúið land á ný eftir ávarpið í Barcelona. Heldur ritari katalónska harðlínuflokksins JxCAT, Jordi Turull, því fram að ætlun Puigdemonts sé að snúa aftur til Waterloo í Belgíu þar sem hann dvaldi bróðurpart útlegðar sinnar.

Lét spænski dómsmálaráðherrann Felix Bolanos þann dóm falla í dag að áætlunin um handtöku Puigdemonts hefði  verið alfarið á ábyrgð Mossos d' Esquadra. „Á Spáni er ætlast til þess að lög séu virt og úrskurðum dómstóla hlýtt,“ sagði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert