Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, hyggst ekki mæta Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, í kappræðum á Fox News. Þó hafa báðir frambjóðendur fallist á að mætast í kappræðum á ABC News 10. september.
Á löngum blaðamannafundi sem Trump hélt í gær staðfesti hann að hann hefði samþykkt boð í kappræður á Fox News 4. september, ABC News 10. September og á NBC News 25. september.
Harris hefur þegar samþykkt að mæta í kappræðurnar á ABC News.
ABC News hefur eftir talsmanni hjá kosningateymi Harris að hún muni ekki samþykkja boð Fox News um kappræður 4. september.
Talsmaðurinn bætti því þó við að Harris væri til í að skoða það að mæta í fleiri kappræður en þær þyrftu að vera haldnar eftir kappræðurnar á ABC News.
Harris er ekki búin að svara boði NBC News um kappræður 25. september.
Eins og fyrr segir þá hefur Trump samþykkt að mæta í kappræðurnar á ABC News. Ekki liggur þó fyrir hvort að ákvörðun um Harris um að mæta honum ekki á Fox News komi til með að hafa áhrif á það.
„Ég er ánægð með að hann skuli loksins hafa samþykkt að taka þátt í kappræðunum 10. september. Ég hlakka til og vona að hann mæti,“ sagði Harris við blaðamenn í kjölfar kosningafundar í gær.
ABC News hafði upphaflega skipulagt kappræðurnar 10. september á milli Trumps og Joe Bidens Bandaríkjaforseta.
Eftir að Biden dró framboð sitt til baka fóru fyrirhuguðu kappræðurnar þó í uppnám þar sem Trump hótaði því að mæta ekki án þess að fá skilmálum breytt í ljósi þess að nýr frambjóðandi væri á móti honum.