Tveggja ára fangelsi fyrir myndbönd á Instagram

Lögregluþjónn og mótmælandi takast á í Liverpool þar sem fólk …
Lögregluþjónn og mótmælandi takast á í Liverpool þar sem fólk kom saman í kjölfar stunguárásarinnar. AFP

Héraðsdómur í Bretlandi dæmdi í dag hinn 21 árs Bradley Makin í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa birt myndbönd á Instagram af sér hvetja mótmælendur til dáða.

BBC greinir frá. 

Ráðlagði mótmælendum að klæðast grímum

Dómurinn féll ásamt mörgum öðrum í dag í tengslum við óeirðirnar sem orðið hafa í Bretlandi vegna stunguárásar í Southport í júlí, þegar þrjár ungar stúlkur létu lífið.

Hinn 26 ára gamli Tyler Kay birti færslur á X þar sem hann kallaði eftir því að innflytjendum yrði vísað burt úr landinu og ráðlagði mótmælendum í Bretlandi að setja á sig grímur.

Þá endurbirti hann einnig skjáskot af skilaboðum þar sem hvatt var til aðgerða gegn nafngreindum lögfræðingum sem sérhæfa sig í vernd innflytjenda í bænum Ellfield Court í Northampton. 

Dómarinn sagði að Kay hefði birt efnið vegna þess að hann „héldi að það hefði engar afleiðingar“ og að tónninn í færslunni „afhjúpi augljóslega kynþáttahatur“ hans.

Var Kay dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir færslurnar.

Þótti ala á kynþáttahatri

Hinn 28 ára gamli Jordan Parlour var í dag einnig dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir færslur á miðlinum Facebook, þar sem hann þótti ala á kynþáttahatri. 

Parlour játaði að hafa birt færslur þar sem hann hvatti mótmælendur til að ráðast í byggingar þar sem fleiri en 200 flóttamenn og hælisleitendur leituðu skjóls. 

Parlour fékk styttri fangelsisdóm einkum vegna þess að hann játaði sök og dómarinn taldi hann sýna eftirsjá, þannig að dómurinn var styttur um þriðjung.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert