Kamala Harris nær forskoti í lykilríkjum

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata. AFP

Svo virðist sem Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaefni demókrataflokksins, haldi áfram að auka forskot sitt á Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í könnunum.

Í nýrri könnun New York Times og Siena-háskólans sem birtist í dag kemur fram að Harris hafi forskot í þremur lykilríkjum vestanhafs, Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin. Harris leiðir með fjórum prósentustigum og mælist með 50% fylgi en Trump með 46%.

Um er að ræða fjölmennustu ríki miðvesturríkja Bandaríkjanna en talið er líklegt að úrslitin í þeim muni ráða úrslitum forsetakosninganna í nóvember.

Telja Harris með betri skapgerð

Niðurstöður könnunarinnar marka nokkurn viðsnúning en áður en að Joe Biden Bandaríkjaforseti hætti við framboð sitt til endurkjörs hafði Donald Trump ýmist leitt kannanir í ríkjunum þremur eða hlotið álíka mikið fylgi og Biden.

Þá sýndi könnunin að meirihluti kjósenda treysti Trump betur fyrir efnahags- og innflytjendamálum en að mikill meirihluti treysti Harris hinsvegar fyrir ákvarðanatöku þegar kemur að þungunarrofi.

Þá hefur hlutfall þeirra sem líta Harris jákvæðum augum aukist um 10% í Pennsylvaníu á aðeins mánuði.

Kjósendur sögðust álíta hana gáfaðri en Trump og hafa betri skapgerð til að stjórna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert