Karl Bretakonungur tjáir sig um óeirðirnar

Breska krúnan tjáir sig venjulega ekki um mál sem gætu …
Breska krúnan tjáir sig venjulega ekki um mál sem gætu valdið pólitískum sundrungi. AFP/Chris Jackson

Karl Bretakonungur tjáði sig í fyrsta skipti í gær um óeirðirnar í Bretlandi síðustu daga. 

Hann hrósaði bresku lögreglunni og viðbragðsaðilum fyrir „allt sem þau hafa gert til að koma á friði á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir barðinu á óeirðarseggjum“.

Þá kvaðst hann vona að „sameiginleg gildi gagnkvæmrar virðingar og skilnings myndu halda áfram að styrkja og sameina þjóðina“.

Venjulega tjáir breska krúnan sig ekki um málefni sem gætu valdið pólitískum ágreiningi. Karl sagði aftur á móti að Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og lögreglustjóri hefðu hvatt sig til að tjá sig um málið. 

Beina reiði sinni að innflytjendum

Kveikjuna að óeirðunum má rekja til hnífstunguárásar í Southport á mánudaginn í síðustu viku.

Axel Rudakubana, sautján ára drengur, stakk þrjár ungar stúlkur til bana. Fljótlega fóru af stað flökkusögur um uppruna árásarmannsins og trúarbrögð, þar sem hann var sagður vera hælisleitandi og múslimi.

Rudukubana er sonur innflytjenda frá Rúanda, en er sjálfur breskur þegn, fæddur og uppalinn í Cardiff. 

Óeirðaseggirnir beina reiði sinni að innflytjendum, og þá sérstaklega múslimum. 

Um 500 hafa verið handtekin síðustu daga og hefur Starmer heitið því að þeir sem hafa staðið að mótmælunum verði sóttir til saka.

Tveggja ára fangelsi 

Nú þegar er búið að dæma einn mann í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa birt myndskeið á Instagram af sér hvetja mótmælendur til dáða. 

Maðurinn birti einnig færslur á X þar sem hann kallaði eftir því að innflytjendum yrði vísað burt úr landi og ráðlagði mótmælendum í Bretlandi að setja á sig grímur. 

Þá endurbirti hann einnig skjáskot af skilaboðum þar sem hvatt var til aðgerða gegn nafngreindum lögfræðingum sem sérhæfa sig í vernd innflytjenda í bænum Ellfield Court í Northampton. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert