Ísing gæti hafa valdið flugslysinu

Flak flugvélarinnar sem fórst á föstudag.
Flak flugvélarinnar sem fórst á föstudag. AFP

Sérfræðingar sem rannsaka orsök flugslyssins í borginni Sao Paulo í Brasilíu á föstudag segja að ísing á vængjum flugvélarinnar gæti hafa valdið slysinu. Yfirvöld segja að búið sé að sækja lík allra hinna látnu.

Marcel Moura, rekstrarstjóri flugfélagsins Voepass, segir flugvélina sem um ræðir vera viðkvæmari gagnvart ísingu en að veðuraðstæður á föstudaginn hafi samt verið ásættanlegar. Flugvélin var á vegum flugfélagsins Voepass.

Moura hafði áður sagt að „engin tæknileg vandamál“ hafi komið upp sem gætu skýrt orsök slyssins.

Bráðabirgðaskýrsla á næstu 30 dögum

Sérfræðingar eru byrjaðir að rannsaka tvo flugrita úr flaki vélarinnar sem innihalda samræður flugmanna inni í flugklefanum svo og önnur gögn er varða flugferðina.

Flugmálayfirvöld í Brasilíu hafa gefið út að stefnt sé að því að birta bráðabirgðaskýrslu um slysið innan 30 daga.

Í gær greindi talsmaður slökkviliðsins á svæðinu frá því að það gæti tekið nokkra daga að sækja lík hinna látnu vegna veðurskilyrða. Aftur á móti greindu brasilísk yfirvöld frá því í dag að búið væri að sækja öll lík hinna látnu en 62 farþegar og áhöfn voru um borð.

Farþegaflugvélin hrapaði á íbúðarhverfi í Sao Paulo á föstudaginn og náðust myndbönd af hrapi vélarinnar. Engar tilkynningar hafa borist um að íbúar á svæðinu hafi slasast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert