Trump sakar Írani um að hafa hakkað framboðið

Trump segir Microsoft hafa veitt staðfestingu.
Trump segir Microsoft hafa veitt staðfestingu. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sakar Írani um að standa að baki gagnaleka frá framboði hans. Þá segir hann skýrslu frá Microsoft staðfesta aðkomu Íran en írönsk stjórnvöld neita sök í máli. 

Samkvæmt Reuters hófst málið á umfjöllun fjölmiðilsins Politico, þar sem greint var frá því að miðillinn hefði fengið send innanbúðargögn frá framboðinu, frá nafnlausum heimildarmanni, sem að innihéldu meðal annars yfirferð yfir hugsanlega veikleika er varða varaforsetaefni Trump, J.D. Vance

Hakkarar sagðir tengjast Íran

Gaf framboðið frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þess efnis að gögnin sem um ræðir hefðu verið ólöglega fengin af erlendum óvinum sem að vilji hafa áhrif á forsetakosningarnar. Framboðið hefur vísað til nýrrar skýrslu frá Microsoft þar sem fram komi að hakkarar tengdir Íran hafi reynt að komast inn á aðgang hátt setts embættismanns hjá bandarísku forsetaframboði í júní. 

Þá hélt Trump sjálfur því fram að Microsoft hefði staðfest við framboðið að Íran hefði hakkað sig inn í eina heimasíðu framboðsins en ekki náð öðru en opinberum gögnum. 

Haft er eftir fulltrúum Írans hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem þeir segja írönsk stjórnvöld ekki hafa nein áform eða hvata til þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert