Gróðureldar nálgast Aþenu

Þykkur reykur umlykur fjallið Pentelicus sem stendur við Aþenu, höfuðborg Grikklands, en þar hafa slökkviliðsmenn barist við mikla gróðurelda.

Fram kemur í umfjöllun AFP að búist er við að sumarið í ár verði það heitasta í Grikklandi frá því mælingar hófust. 

Eldarnir ná yfir 30 kílómetra langt belti og sums staðar teygja eldtungurnar sig í 25 metra hæð. Eldarnir færa sig nær Aþenu að því er gríska fréttastofan ERT greinir frá. 

Svæðið umhverfis fjallið stendur nú í ljósum logum, en fjallið er þekkt fyrir marmarann sem var notaður til að reisa Akrópólis og aðrar fornar byggingar í höfuðborginni.

Reykur sést hér umlykja Meyjarhofið á Akrópólishæð við Aþenu.
Reykur sést hér umlykja Meyjarhofið á Akrópólishæð við Aþenu. AFP

Víða má sjá skemmdir

Þá er búið að rýma bæinn Maraþon vegna ástandsins. 

Víða má sjá skemmdir á húsum sem standa við veginn sem liggur að Maraþon vegna eldanna og mörg þök hafa brunnið. 

Í Dione hafa bifreiðar orðið alelda og eldar hafa nálgast fjölbýlishús. Sumir íbúar hafa greint frá því að þeir hafi flúið í flýti í bílum þegar þeir sáu eldana nálgast hratt. 

Hér má sjá hús sem varð eldi að bráð í …
Hér má sjá hús sem varð eldi að bráð í gær í Varnavas, sem eru norður af Aþenu. AFP

Barnaspítali rýmdur

Í Penteli, sem er úthverfi Aþenu sem stendur við fjallið, gátu íbúar lítið gert annað en að fylgjast með eldunum breiða snöggt úr sér í hlíðum Pentelicus, sem er um 1.100 metra hátt. 

Búið er að rýma barnaspítala og heilsugæslu í Penteli, en í morgun fyrirskipuðu grísk yfirvöld íbúum að hafa sig á brott. 

Spáð er að hitinn í Aþenu fari upp í 39 gráður í dag og að vindhraðinn nái um 14 metrum á sekúndu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka