Herþjónusta Walz undir smásjá

Þegar frambjóðendur stíga fram á stærsta pólitíska svið veraldar þá …
Þegar frambjóðendur stíga fram á stærsta pólitíska svið veraldar þá er bakgrunnur þeirra skoðaður gaumgæfilega. AFP/Getty Images/Justin Sullivan

24 ára herþjónusta Tim Walz, varaforsetaframbjóðanda demókrata, í þjóðvarðliði Bandaríkjanna er undir smásjá. Repúblikanar saka hann um að skreyta sig með stolnum fjöðrum.

Kosningateymi Kamölu Harris forsetaframbjóðanda deildi á samfélagsmiðlum myndskeiði frá árinu 2018 þar sem Tim Walz var að tala um strangari skotvopnalöggjöf og sagði meðal annars:

„Við getum séð til þess að þessi stríðsvopn, sem ég bar í stríði, séu aðeins notuð í stríði,“ sagði Walz.

Walz var sendur með þjóðvarðliðinu í ágúst 2003 til Vicenza á Ítalíu, sem hluti af stuðningi við stríð Bandaríkjanna í Afganistan, að sögn talsmanns þjóðvarðliðsins. Walz hefur hins vegar aldrei verið á vígvellinum í stríði eins og hann sagði í myndskeiðinu.

Associated Press greinir frá.

Fór ekki rétt með staðreyndir

J.D. Vance, varaforsetaframbjóðandi repúblikana, hefur skotið á Walz fyrir þetta og annað tengt herþjónustu Walz.

„Ekki þykjast vera eitthvað sem þú ert ekki,“ sagði JD Vance á miðvikudaginn í Michigan.

„Ég myndi skammast mín ef ég segði að ég hefði logið um herþjónustu mína eins og þú.“

Kosningateymi Harris hefur gefið út yfirlýsingu þar sem sagt er að Walz hafi „mismælt“ sig.

„Þegar ríkisstjórinn var að rökstyðja hvers vegna stríðsvopn ættu aldrei að vera á götum úti eða í skólastofum okkar, mismælti hann sig,“ sagði Lauren Hitt, talsmaður kosningateymis Harris.

J.D. Vance hefur gagnrýnt Walz verulega að undanförnu.
J.D. Vance hefur gagnrýnt Walz verulega að undanförnu. AFP/Getty images/Emily Elconin

Hætti fyrir brottför til Íraks

Þetta er þó ekki eina sem repúblikanar hafa skotið á. Walz hætti í þjóðvarðliðinu í maí árið 2005, tveimur mánuðum áður en herdeild hans fékk að vita að hún yrði send á vígvöllinn í Írak.

Walz var leiðtogi herdeildarinnar. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær Walz sendi uppsagnarbréf sitt til þjóðvarðliðsins en hann hafði skilað inn framboðspappírum fyrir þingkosningar í febrúar sama ár, eða mörgum mánuðum áður en herdeildin hans fékk að vita að hún yrði send til Íraks.

Að svo stöddu liggja ekki fyrir neinar sannanir þess efnis að Walz hafi tímasett brottför sína frá þjóðvarðliðinu í þeim tilgangi að komast hjá því að vera sendur til Íraks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert