Kínverjar hafa hvatt stríðandi fylkingar í Úkraínustríðinu til stillingar og að draga úr bardögum sínum en her Úkraínu hefur á síðustu dögum gert árásir á landamærahéraðið Kúrsk í Rússlandi og hafa um 80 þúsund íbúa Kúrsk verið fluttir á brott.
Í yfirlýsingu frá kínverska utanríkisráðuneytinu segir að Kínverjar ætli að vinna að pólitískri lausn í samvinnu við alþjóðasamfélagið.
„Kína mun halda áfram að halda samskiptum við alþjóðasamfélagið og gegna uppbyggilegu hlutverki við að stuðla að pólitískri lausn,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Kínverjar segjast vera hlutlausir og veiti hvorki Rússum né Úkraínumönnum hernaðaraðstoð ólíkt Bandaríkjamönnum og fleiri vestrænum ríkjum.