Maður á fertugsaldri handtekinn eftir hnífstunguárás

Lögregluyfirvöld segja ekkert benda til þess að árásin tengist hryðjuverkum.
Lögregluyfirvöld segja ekkert benda til þess að árásin tengist hryðjuverkum. AFP

Lögreglan í Lundúnum hefur handtekið 32 ára gamlan karlmann í tengslum við hnífstunguárás á 11 ára stúlku og móður hennar á Leicester-torginu í miðborg Lundúna.

Stúlkan særðist alvarlega en er ekki talin vera í lífshættu. Móðir hennar hlaut minniháttar áverka, samkvæmt lögregluyfirvöldum í Lundúnum.

Fyrr í dag var greint frá því að maður hefði ráðist á 34 ára konu og 11 ára stúlku á Leicester-torginu.

Lögreglan segir málið í rannsókn en að svo stöddu bendi ekkert til þess að árásarmaðurinn hafi þekkt mæðgurnar.

Ekkert bendi til hryðjuverka

„Á meðan við höldum áfram að vinna að því að staðfesta tilefni árásarinnar er ekkert á þessu stigi sem bendir til þess að árásin hafi verið hryðjuverkatengd,“ segir Christina Jessah yfirlögregluþjónn.

Ljósmynd af vettvangi.
Ljósmynd af vettvangi. AFP

Í síðasta mánuði varð 17 ára drengur þremur stúlkum að bana þegar þær voru á dansæfingu í Southport. Drengurinn réðst á þær með hníf og særði önnur börn.

Miklar óeirðir brutust út í kjölfarið sem eru taldar með þeim verstu í sögu Bretlands í 13 ár.

Jarðarför stúlku sem lést í árásinni í síðasta mánuði var gerð í gær og var fjölmennt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert