Methiti mældist á Svalbarða um helgina

Methiti mældist á Svalbarða um helgina þar sem hitinn fór …
Methiti mældist á Svalbarða um helgina þar sem hitinn fór upp í 20,3 gráður í gær. AFP

Hitamet var slegið á Svalbarða um helgina þegar hitinn fór yfir 20 gráður. Er þetta hæsti hiti sem mælst hefur í ágúst á svæðinu. Meðalhitinn á Svalbarða í ágúst er á bilinu sex til níu gráður. 

Mældist hitinn 20,3 gráður í gær við veðurstöðina á flugvellinum á Svalbarða, að því er fram kemur í færslu Veðurstofu Noregs á X. 

Fyrra met fyrir ágúst var 18,1 stiga hiti, sem mældist 31. ágúst 1997. Hæsti hiti sem nokkru sinni hefur verið mældur á Svalbarða var 21,7 gráður, þann 25. júlí 2020. 

Heimskautasvæðið hlýnar 

Svalbarði er staðsettur mitt á milli meginlands Noregs og norðurpólsins.

Samkvæmt rannsókn sem birt var árið 2022 af finnskum og norskum vísindamönnum hefur heimskautasvæðið hlýnað nær fjórfallt hraðar en aðrir hlutar heimsins síðan 1979.

Í skýrslu sem birt var árið 2019 um loftslag á Svalbarða árið 2100, kom fram að meðalhitinn á eyjaklasanum muni hækka um 7-10 gráður á tímabilinu 2070 til 2100, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert