Ráðherra handtekinn fyrir mútur

Volodimir Selenskí, forseti Úkraínu, hefur heitið því að taka á …
Volodimir Selenskí, forseti Úkraínu, hefur heitið því að taka á spillingarmálum í landinu. AFP

Úkraínskur aðstoðarorkumálaráðherra, sem sakaður er um að hafa þegið mútur að andvirði hálfrar milljónar dala, hefur verið handtekinn ásamt þremur meintum vitorðsmönnum.

Frá þessu greindi öryggisþjónusta Úkraínu, SBU, í dag.

Ráðherrann, sem SBU nafngreinir ekki, krafðist þess að embættismenn í námuiðnaði greiddu honum fyrir að flytja búnað frá námum í austurhluta Donetsk-héraðs í fremstu víglínu yfir í kolasvæði í vesturhluta Úkraínu.

„Tækið sem um ræðir er einstakt og af skornum skammti, tilheyrir einu af kolafyrirtækjum í ríkiseigu sem staðsett er á virkasta svæðinu í austurframlínunni - Pokrovsk,“ segir í yfirlýsingu SBU.

Naut aðstoðar þriggja vitorðsmanna

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að í vor hafa fulltrúar iðnaðarins leitað til aðstoðarorkumálaráðherrans til að fá leyfi til að rýma búnaðinn af átakasvæðinu og nota hann í námum á vesturhluta svæðisins og hafi embættismaðurinn krafist peninga til að fjarlægja hann. Þar segir að ráðherrann hafi tekið við greiðslunni með aðstoð þriggja meintra vitorðsmanna.

Úkraína hefur lengi glímt við alvarleg spillingarvandamál en Volodimir Selenskí hét því þegar hann tók við embætti forseta að binda enda á spillingu í landinu og hefur hann rekið fjölda embættismanna þar á meðal varnarmálaráðherra sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert