Senda kafbát til Mið-Austurlanda

Flugmóðurskipið USS Abraham Lincoln.
Flugmóðurskipið USS Abraham Lincoln. AFP

Bandaríkjamenn hafa sent eldflaugakafbát til Mið-Austurlanda vegna vaxandi spennu á svæðinu.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að flugmóðurskip sem þegar sé á leið á svæðið muni hraða för sinni til að bregðast við ótta um víðtækari svæðisbundin átök eftir morðið á Ismail Haniyeh, leiðtoga Hamas, í Teheran 31. júlí.

Íranar hafa sakað Ísraelsmenn um morðið á Haniyeh og hafa heitið því að refsa þeim.

Í yfirlýsingu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu í gær kom fram að Austin hefði sent USS Georgia-kafbátinn á svæðið og þá er USS Abraham Lincoln-flugmóðurskipið, sem er með F-35C-orrustuþotur innanborðs, á leiðinni.

Árás gæti verið í farvatninu

Það er enn óljóst hvernig Íranar hyggjast bregðast við en önnur möguleg árás á Ísrael gæti verið í farvatninu frá vígasveit Hisbollah sem styður Íran.

Vígasveitin hefur heitið því að bregðast við morðinu á yfirhershöfðingjanum Fuad Shukr sem átti sér stað nokkrum klukkustundum eftir drápið á Haniyeh.

Ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta telur að vopnahlé á Gasa og frelsun ísraelskra gísla sé besta leiðin til að draga úr spennu á svæðinu og hefur hvatt til þess að viðræður hefjist að nýju á fimmtudag.

Í gærkvöldi brást Hamas við tilraunum Bandaríkjamanna til að endurvekja vopnahléstilraunirnar með því að segja að Ísrael ætti að neyðast til að hrinda í framkvæmd samningum sem þegar liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert