Starfsmaður Marels var farþegi í flugvélinni

Ljósmynd af flakinu.
Ljósmynd af flakinu. AFP

Starfsmaður Marels lést í flugslysinu í Brasilíu á föstudaginn. Þetta staðfestir Kristinn Daníel Lee Gilsdorf upplýsingafulltrúi Marels í samtali við mbl.is.

Maðurinn var brasilískur og bjó í Brasilíu. Vísir greindi fyrst frá.

Samkvæmt vefsíðu Marels hefur fyrirtækið starfstöðvar í yfir 30 löndum og eru starfsmenn yfir 7.500 talsins. Fyrirtækið hefur meðal annars starfstöð í Brasilíu.

Búið að sækja lík allra hinna látnu

Farþegaflugvél hrapaði í íbúðarhverfi í Sao Paulo á föstudaginn og létust 62 í slysinu. Búið er að sækja lík allra hinna látnu.

Enginn íbúi á svæðinu slasaðist þegar flugvélin hrapaði í íbúðarhverfið.

Sérfræðingar sem rannsaka slysið segja vísbendingar um að ísing á vængjum vélarinnar hafi valdið slysinu. Flugmálayfirvöld segja að bráðabirgðaniðurstöður um orsök slyssins eigi að liggja fyrir á næstu 30 dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert