Klearchos Smaraidas var í áfalli við verksmiðju sína í úthverfi í Aþenu eftir að hafa fengið þær fréttir að umfangsmiðlir gróðureldar hefðu orðið einum af hans elsta starfsmanni að bana.
Konan, sem hét Nadia var frá Moldóvu og á sextugsaldri, varð fórnarlamb eldanna sem hafa valdið miklu tjóni í kringum Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Smaraidas sagði að lík hennar hefði fundist í baðherbergi verksmiðjunnar í Vrilissia-úthverfinu eftir að fjölskylda hennar gerði viðvart um hvarf hennar. „Hún vann hjá mér í 20 ár. Hún var fullkomin á allan hátt. Hún var vinnusöm og kurteis,“ sagði Smaraidas við AFP.
Þegar það kviknaði í byggingunni náði flest starfsfólk að koma sér út um bakdyrnar en varð Nadia of hrædd og hélt hún yrði örugg á baðherberginu.
„Hún dó líklega vegna súrefnisskorts. Þetta er hörmulegt, alger harmleikur,“ sagði Smaraidas um konuna, sem samkvæmt heimildum grískra fjölmiðla var tveggja barna móðir.
Húsið við hliðina á verksmiðjunni brann einnig niður, aðeins múrsteinsveggirnir standa eftir, en allt annað er orðið að ösku og braki. „Ég hefði aldrei í milljón ár trúað því að eldur myndi koma hingað,“ sagði Sakis Morfis, húsráðandi sem missti húsið sitt.
„Þetta er rugl. Við erum án klæða og peningalaus, allt brann. Ég er þunglyndur, örvæntingarfullur, sorgmæddur,“ sagði 65 ára Morfis við AFP fréttastofuna.
Í hverfinu og á nærliggjandi götum og svæðum ríkti mikil örvænting meðal íbúa á mánudagskvöldið þegar þeir tóku höndum saman til að slökkva eldana með vatnsfötum, slöngum og slökkvitækjum.
„Þetta svæði er með of mikið af skógi og þegar vindurinn blæs svona er það slæmt,“ sagði Asterios, 45 ára gamall slökkviliðsmaður frá Aþenu. „Furutrén eru eins og eldspýtur og loftslagsbreytingar hafa breytt skóginum í eyðimörk. Þetta svæði er nálægt skóginum, svo það var augljóslega í hættu,“ sagði hann við AFP.
„Við höfum verið að vinna í tvo, þrjá daga nú þegar, og eigum eftir að minnsta kosti tvo daga í viðbót,“ sagði hann. „Þetta eru erfiðustu eldarnir í sumar vegna hitans og með vindinum breiddist eldurinn út eins og brjálæðingur,” bætti hann við.