Gagnaleki úr herbúðum Trumps

Viðkvæmum upplýsingum var lekið til fjölmiðla.
Viðkvæmum upplýsingum var lekið til fjölmiðla. AFP/Sarah Yenesel

Viðkvæmum innherjaupplýsingum innan úr kosningabaráttu Trumps var lekið til að lágmarki þriggja fréttamiðla vestanhafs, en ákváðu allir fjölmiðlarnir að sleppa því að fjalla ítarlega um innihaldið.

Kosningateymi Trumps kveðst hafa orðið fyrir netárás af hálfu Írans og telja sumir fjölmiðlar að uppruni lekans sé áhugaverðari en gögnin sjálf.

Meðal upplýsinga sem var lekið voru skjöl sem innihéldu bakgrunnsupplýsingar um J.D. Vance, varaforsetaefni Donalds Trumps.

Associated Press greinir frá.

New York Times, Washington Post og Politico

Fréttamiðlarnir New York Times, Politico og Washington Post hafa fengið þessi gögn en í stað þess að fjalla um innihaldið þá hafa þeir fjallað um gagnalekann sjálfan og hver beri ábyrgð á honum.

Í stórum kosningabaráttum í Bandaríkjunum eru alltaf gerðar ítarlegar skýrslur af framboðum um frambjóðendur, bæði um eigin frambjóðendur og mótframbjóðendur.

Farið er yfir styrkleika, veikleika, fyrri ummæli og allt á milli himins og jarðar sem gæti haft áhrif á kosningabaráttur. Í þessum skýrslum geta verið mjög viðkvæmar persónuupplýsingar.

Fengu tölvupóst frá „Robert“

Politico skrifaði um helgina að frá og með 22. júlí hefðu byrjað að berast tölvupóstar frá einstaklingi sem kenndur er við „Robert“.

Barst þeim 271 blaðsíðna kosningaskjal um Vance og skýrslu um Marco Rubio, sem einnig var talinn vera mögulegt varaforsetaefni Trumps. Bæði Politico og Post sögðu að tveir einstaklingar hefðu staðfest að skjölin væru ósvikin.

„Eins og margar aðrar bakgrunnsskýrslur voru í þeim fyrri yfirlýsingar sem gátu verið vandræðalegar eða skaðlegar, eins og ummæli Vance þar sem hann beinir spjótum sínum að Trump,“ segir í frétt New York Times um málið.

New York Times.
New York Times. AFP

Hvaðan gögnin komu er hulin ráðgáta. Í frétt Politico segir fréttamiðillinn að þeir viti ekki hver „Robert“ sé og að þegar fjölmiðillinn ræddi við Robert sagði hann:

„Ég legg til að þú verðir ekki forvitinn um hvaðan ég fékk þau.“

FBI rannsakar málið

Kosningateymi Trumps hefur fullyrt að það hafi orðið fyrir netárás og að Íranir stæðu á bak við hana.

Þótt teymið hafi opinberlega ekki gefið neinar sannanir fyrir fullyrðingunni kom hún degi eftir að skýrsla Microsoft greindi frá tilraun leyniþjónustu Írans til að komast yfir tölvupóst fyrrverandi háttsetts ráðgjafa forsetaframboðs. Ekki var tekið fram í skýrslunni fyrir hvaða framboð sá ráðgjafi starfaði.

Alríkislögreglan, FBI, kveðst vera að rannsaka málið.

Steven Cheung, talsmaður fyrir kosningabaráttu Trumps, sagði að þeir fjölmiðlar sem fjölluðu um innihald gagnanna væru að hjálpa óvinum Bandaríkjanna.

Hvernig efnið barst áhugaverðara

Í frétt New York Times segir að fréttamiðillinn vilji ekki ræða hvers vegna ákveðið hefði verið að fjalla ekki beint um gögnin.

Talsmaður Washington Post sagði:

„Eins og með allar upplýsingar sem við fáum tökum við tillit til áreiðanleika efnisins, hvaða hvatir heimildarmaðurinn kunni að hafa og metum almannahagsmuni við ákvarðanatöku um hvað, ef eitthvað, skuli birta.“

Brad Dayspring, talsmaður Politico, sagði að ritstjórar þar hefðu metið sem svo að „spurningarnar um uppruna skjalanna og hvernig þau komust á okkar borð væru fréttnæmari en efnið sem var í skjölunum.“

Frægt er þegar Wikileaks birti yfir illa fengin gögn úr kosningabaráttu Hillary Clintons og var þá fjallað mikið um innihald gagnanna. Donald Trump hvatti þá fjölmiðla einnig til að fjalla um innihald gagnanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert