Segjast vera að ná utan um gróðureldana

Grísk stjórnvöld segja að viðbragðsaðilum sé að takast að ná stjórn á mannskæðum gróðureldum sem hafa geisað í Grikklandi síðustu daga. Slökkvistarf standi yfir á einstökum dreifðum svæðum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Vassilis Kikilias, ráðherra loftslagsmála og almannavarna í Grikklandi.

Slökkviliðsmaður að störfum í Grikklandi.
Slökkviliðsmaður að störfum í Grikklandi. AFP

Gróðureldarnir brutust út fyrir tveimur dögum og hafa 702 slökkviliðsmenn unnið að því að slökkva eldana. Jafnframt hefur verið notast við tæplega 200 ökutæki og 18 þyrlur í baráttunni, samkvæmt tilkynningu ráðherrans.

Einn hefur látist í gróðureldunum en fleiri þúsund manns hefur verið gert að yf­ir­gefa heim­ili sín í að minnsta kosti átta bæj­ar­fé­lög­um í Grikklandi á síðustu dögum.

Eld­arn­ir ná yfir 30 kíló­metra langt belti og sums staðar teygja eld­tung­urn­ar sig í 25 metra hæð.

Evrópusambandið brást við ákalli grískra stjórnvalda og hafa slökkvilið frá Ítal­íu, Tékklandi, Frakklandi og Rúm­en­íu aðstoðað yf­ir­völd í Grikklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert