Tæknilegir örðugleikar urðu til þess að viðtal tæknimógúlsins Elons Musks við Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, tafðist um 40 mínútur.
Viðtalinu var streymt í beinni útsendingu í gærkvöldi frá aðgangi Trumps á X, @realDonaldTrump.
Musk kennir tölvuárás um tafirnar, en það hefur ekki fengist staðfest að það hafi verið tilfellið.
Trump birti síðast færslu á samfélagsmiðlinum 25. ágúst og var það sakborningsmyndin af honum. Fyrir þá færslu hafði hann ekki birt neitt á X í tvö ár.
Musk spurði Trump spurninga um málefni á borð við innflytjendur og verðbólgu, en þær voru ekki beint krefjandi, að því er segir í umfjöllun BBC.
Þar er gagnrýnt að viðburðurinn hafi verið auglýstur sem viðtal við Trump, en að forsetinn fyrrverandi hafi fengið að halda fram fjölda órökstuddra fullyrðinga án þess að vera inntur eftir rökstuðningi fyrir þeim.
Musk ítrekaði stuðning sinn við Trump, sem mætir nýjum frambjóðanda Demókrataflokksins, Kamölu Harris, í kosningunum í nóvember.
Eftir að Harris tilkynnti framboð sitt í stað Joes Bidens, þá hefur verið minni munur á fylgi demókrata og repúblikana í könnunum heldur en þegar Biden var í framboði.
Musk og Trump komu inn á ýmis mál, allt frá banatilræði við Trump í Pennsylvaníu í síðasta mánuði, til vilja hans að Bandaríkjamenn myndu taka upp sams konar eldflaugavarnarkerfi eins og notað er í Ísrael og kallað er „járnhvelfing“.
Trump sagði einnig að það yrði eitt af fyrstu verkum sínum sem forseti að loka menntamálaráðuneytinu sem alríkisstofnun og færa starfsemi þess til einstakra ríkja Bandaríkjanna.
Trump er með 88 milljónir fylgjenda á X og Elon Musk er með tæplega 194 milljónir fylgjenda.