Forsætisráðherra Taílands vikið úr embætti

Srettha Thavisin, nú fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, var vikið úr embætti …
Srettha Thavisin, nú fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, var vikið úr embætti í dag. AFP

Stjórnlagadómstóll Taílands hefur fjarlægt forsætisráðherra landsins, Srettha Thavisin, úr embætti fyrir að hafa brotið gegn stjórnarskrá. 

Thavisin tók við embættinu fyrir minna en ári síðan og batt þar með enda á níu ára herstjórn í landinu. Hann er þriðji forsætisráðherrann á 16 árum til að vera fjarlægður úr embætti af dómsstólnum.

Sex mánaða fangelsisdómur að baki

Brotið sem um ræðir lýtur að siðferðislegum skyldum forsætisráðherrans. Telur dómstóllinn hann hafa gerst sekan um slíkt brot er hann skipaði lögfræðinginn Pichit Chuenban í ráðherrastól í ríkisstjórn sinni en Chuenban á sex mánaða fangelsisdóm að baki fyrir tilraun til múta. 

40 þingmenn lögðu fram kvörtun um skipun Chuenban fyrir dómstólinn. Voru allir 40 þingmennirnir skipaðir af herforingjastjórninni sem steypti kjörinni ríkisstjórn Pheu Thai af stóli í valdaráni árið 2014.

Á blaðamannafundi að dómsuppkvaðningu lokinni kvaðst Thavisin ekki í vafa um eigin heiðarleika og sagði að honum þætti úrskurðurinn miður þó hann vildi ekki fullyrða að hann væri rangur.

Á blaðamannafundi að dómsuppkvaðningu lokinni.
Á blaðamannafundi að dómsuppkvaðningu lokinni. AFP

Ekki til þess að auka stöðugleika

Taíland er ekki þekkt fyrir siðgæði í stjórnmálum en mútur hafa lengi viðgengist innan þingsins og ráðherrar með lengri dóma að baki en Chuenban hafa setið í ríkisstjórn óáreittir. 

Munu Taílendingar óneitanlega sjá dóminn sem pólitískan, en ekki er hægt að áfrýja úrskurðum dómsstólsins. 

Mun staðgengill gegna skyldum forsætisráðherrans þar til taílenska þingið kemur saman til að kjósa nýjan forsætisráðherra og er viðbúið að miklar samningaviðræður taki nú við innan þingsins. 

Er ljóst að brottvísun Thavisin úr embættinu mun ekki vera til þess að auka jafnvægi í Taílandi þar sem enn gætir óstöðugleika vegna tveggja valdarána hersins á síðustu tveimur áratugum, sem og vegna dalandi efnahagslífs í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert