Frásögnum um kraft sprengingarinnar ber ekki saman

Sprengja sprakk í Kampen-hverfinu í Ósló.
Sprengja sprakk í Kampen-hverfinu í Ósló. mbl.is/Atli Steinn

Enn er ekki ljóst hvað olli sprengingu í íbúðarhúsnæði í Kampen-hverfinu í Osló í Noregi fyrr í dag. Frásögnum vitna og nágranna ber ekki saman um það hvort að um stóra eða litla sprengingu hafi verið að ræða. 

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá

Enginn slasaðist og engar skemmdir virðast hafa orðið á byggingunni þar sem sprengingin varð. Allt bendir til þess að sprengingin hafi orðið á jarðhæð byggingarinnar. 

Margt óljóst enn

Lögreglan leitar nú þeirra sem kynnu að hafa valdið sprengingunni þó margt sé óljóst enn. Þá liggi enginn undir grun enn sem komið er en nágrannar hafi verið látnir vita að svæðið sé orðið öruggt. Enginn hefur verið handtekinn en vopnaðir lögreglumenn voru á svæðinu.

Frásagnir vitna og nágranna á svæðinu virðast á reiki er varðar stærð sprengingarinnar, sumir lýsa henni sem stórri á meðan aðrir segja hana hafa verið svo litla að ekki hafi verið þörf á því að kippa sér upp við hana.

Greint hefur þó verið frá því að vitni hafi séð bíl keyra á miklum hraða frá svæðinu klukkan 14.37 á staðartíma en tilkynning um sprenginguna barst til lögreglu á sama tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert