Góðgerðarsamtök dreifðu sælgæti með metamfetamíni

Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur birt þessa ljósmynd af umræddu ananassælgæti …
Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur birt þessa ljósmynd af umræddu ananassælgæti sem innihélt einnig metamfetamín. AFP

Lögreglan á Nýja-Sjálandi vinnur að því að rekja uppruna sælgætis sem mældist innihalda mögulega lífshættulegt magn metamfetamíns. Góðgerðarsamtök í borginni Auckland dreifði sælgætinu.

Fram kemur í umfjöllun BBC að hátt í 400 manns hafi fengið molana sent til sín sem hluta af matarpakka, en samtökin Auckland City Mission (ACM) aðstoða þá sem glíma við fátækt í borginni.

Sælgætið var sent til samtakanna frá ónefndum aðila og það var geymt í lokuðum umbúðum, að því er talsmenn ACM greina frá. 

Þrír leituðu sér læknisaðstoðar

Að minnsta kosti þrír einstaklingar, þar á meðal barn, hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna málsins. Enginn liggur þó á sjúkrahúsi að því er segir í umfjöllun BBC. 

Götuverðmæti hvers mola er sagt nema sem samsvarar um 80.000 kr. Lögreglan segir að það sé til skoðunar hvort um slys hafi verið að ræða eða hvort þetta hafi verið skipulögð aðgerð. Of snemmt sé að segja nokkuð til um það að svo stöddu. 

Góðgerðarsamtökin létu yfirvöld vita af málinu eftir einn einstaklingur sagði að sælgætið hefði verið undarlegt á bragðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert