Hitamet slegin víða um heim

Í hitabylgju er mikilvægt að drekka nóg af vatni.
Í hitabylgju er mikilvægt að drekka nóg af vatni. AFP/Thomas Coex

Alls hafa 15 hitamet verið slegin frá byrjun þessa árs og öfgar í veðri verða tíðari.

Þetta segir áhrifamikill loftslagssagnfræðingur, Maximiliano Herrera, við breska blaðið Guardian.

130 mánaðarleg hitamet til viðbótar hafa verið slegin ásamt tugþúsundum staðbundinna háhita sem skráðir hafa verið á vöktunarstöðvum frá norðurslóðum til suður Kyrrahafs, að sögn Herrera, sem heldur skrá yfir öfgakennda atburði.

Mexíkó náði hámarki sínu í 52 gráðum við Tepache þann 20. júní. Hinum megin á hnettinum jafnaði ástralska yfirráðasvæði Kókoseyja sögulegt hámark sitt með 32,8 gráðum þann 7. apríl í þriðja sinn á þessu ári.

22. júlí sá heitasti á jörðunni

Alþjóða veðurfræðistofnunin WMO hefur einnig greint frá því að að minnsta kosti 10 lönd hafi skráð hitastig yfir 50 gráður það sem af er þessu ári.

Vonir um kólnun hafa hingað til reynst óraunhæfar. Bráðabirgðagögn frá Copernicus ERA5-gervitunglinu benda til þess að 22. júlí hafi verið heitasti dagur í skráðri sögu jarðar þegar meðallofthiti á yfirborði jarðar náði 17,15 gráðum.

Herrera, sem er frá Kosta Ríka og hefur fylgst með loftslagsgögnum í 35 ár, sagðist vona að öfgaveðurviðvaranir gætu undirbúið heiminn fyrir það sem koma skyldi og dregið úr ógnum við líf, innviði og efnahag.

„Það er í öfgafullu veðri sem við mennirnir og aðrar tegundir erum undir álagi eða í hættu, svo það er þá sem við erum hugsanlega viðkvæmari,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert