Neyðarástand í Belgorod

Rússneskir hermenn sjást hér með bundið fyrir augun á palli …
Rússneskir hermenn sjást hér með bundið fyrir augun á palli herbifreiðar úkraínska hersins í Súmí-héraði í gær. AFP/Roman Pilipey

Úkraínumenn halda áfram sókn sinni á rússnesk yfirráðasvæði og hafa látið sprengjur falla á Belgorod-hérað, þar sem neyðarástandi hefur nú verið lýst yfir.

Úkraínskar hersveitir hófu árás sína í Kúrsk-héraði síðastliðinn þriðjudag og hafa síðan hernumið tugi byggða í stærstu árás erlends hers á rússneskri grundu frá því í síðari heimsstyrjöld.

Vjat­sjeslav Gla­dkov, héraðsstjóri Belg­orod, tilkynnti í morgun neyðarástand í Belgorod, sem að deilir landamærum við Karkív-hérað í Úkraínu.

120.000 Rússar flúið heimili sín

„Ástandið í Belgorod-héraði er enn afar erfitt og viðkvæmt vegna sprengjuárása frá úkraínska hernum. Hús eru ónýt, óbreyttir borgarar hafa látist og slasast,“ segir Gla­dkov á Telegram.

Segir hann einnig að Úkraínumenn hafi beitt drónum í árásum sínum.

Yfir 120.000 Rússar hafa flúið heimili sín af rússnesku landsvæði í kringum Kúrsk-hérað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert