Óvinsæll forsætisráðherra stígur til hliðar

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans.
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans. AFP

Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, tilkynnti í dag að hann muni stíga til hliðar í næsta mánuði og binda þannig enda á þriggja ára kjörtímabil.

Kishida hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti og hafa óvinsældir hans aukist jafnt og þétt í takt við versnandi efnahagsástand í landinu og umræðu um spillingu innan Frjálslynda lýðræðisflokksins.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hefur verið nær óslitið við völd í Japan í áratugi en Kishida greindi frá því í dag að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem oddviti flokksins í næsta mánuði. Flokkurinn hefur meirihluta í báðum deildum japanska þingsins.

Verður því nýr forseti flokksins kjörinn í næsta mánuði sem mun taka við embætti forsætisráðherra í stað Kishida.

Kishida, sem er 67 ára gamall, hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá því í október 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert