Dæmd í 12 ára fangelsi fyrir landráð

Ksenia Karelina.
Ksenia Karelina. AFP

Rússneskur dómstóll hefur dæmt áhugadansarann Kseniu Karelina í 12 ára fangelsi fyrir landráð.

Hún er sökuð um að hafa gefið 51 dollara, sem jafngildir rúmum 7 þúsund krónum, til góðgerðamála í Úkraínu.

Karelina, sem er 32 ára gömul ballerína og er með bandarískt og rússneskt ríkisfang, játaði sök í síðustu viku eftir réttarhöld sem fram fóru fyrir luktum dyrum.

Hún er búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum og varð bandarískur ríkisborgari árið 2021. Karelina var handtekin í fjölskylduheimsókn í janúar síðastliðnum í Jekaterínbúrg sem er um 1.600 km austur af Moskvu.

Saksóknarar höfðu farið fram á 15 ára fangelsisdóm. Dómstóllinn í Jekaterínbúrg fann hana seka um landráð og dæmdi hana til fangelsisvistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert