„Endurheimta nóttina“ í kjölfar hrottafengins morðs

Morðið á hinum unga læknanema hefur valdið miklu uppnámi á …
Morðið á hinum unga læknanema hefur valdið miklu uppnámi á Indlandi. AFP

Fjöldi indverskra kvenna kom saman í Vestur-Bengal í gærkvöldi til að mótmæla í kjölfar dráps og nauðgunar ungs læknanema í höfuðborg ríkisins, Kolkata, í síðustu viku.

Baráttugangan bar nafnið Endurheimtum kvöldið og var hápunktur vikulangra mótmæla í kjölfar hrottafengins dráps 31 árs gamallar konu á háskólasjúkrahúsi í borginni. Konan hafði verið örmagna eftir 36 klukkustunda langa vakt og sofnað í fyrirlestrarsal þar sem sjúkrahúsið skorti hvíldaraðstöðu.

Samstarfsfólk gekk fram á lík konunnar morguninn eftir og bar hún mikla áverka eftir árásarmann sinn. Sjálfboðaliði á sjúkrahúsinu hefur verið handtekinn í tengslum við málið.

Hafa ásakanir verið uppi um að reynt hafi verið að hylma yfir glæpinn og jafnvel vanrækja rannsóknina en málið hefur í kjölfarið farið á borð alríkislögreglunnar.

Konur á öllum aldri og víðs vegar úr þjóðfélaginu gengu …
Konur á öllum aldri og víðs vegar úr þjóðfélaginu gengu á götur út til að mótmæla vinnubrögðum lögreglunnar í málinu. AFP

Konum engin virðing sýnd

Konur á öllum aldri og víða úr þjóðfélaginu brugðust við ákalli á samfélagsmiðlum í kjölfar morðsins og gengu á götur út til að mótmæla, þrátt fyrir rigningu. Á miðnætti fögnuðu Indverjar 77 árum af sjálfstæði. 

Í samtali við BBC spurði baráttukonan Dharitri Chauduri aftur á móti hversu mikið frelsi væri falið í því að konur væru ekki einu sinni öruggar á vinnustað sínum. Kvaðst hún aldrei hafa séð neitt í líkindum við mótmælin á Indlandi áður.

Önnur kona lagði orð í belg við blaðamann BBC og sagði konur engin réttindi hafa í Indlandi.

„Konum er engin virðing sýnd [...] Við erum minna virði en kýr og geitur.“

Hinn ungi læknanemi hafði lagt sig á sjúkrahúsinu eftir 36 …
Hinn ungi læknanemi hafði lagt sig á sjúkrahúsinu eftir 36 klukkustunda vakt þegar ráðist var á hana. AFP

Mestmegnis friðsamleg mótmæli

Þrátt fyrir að mótmælin hafi að mestu farið friðsamlega fram, urðu þau fyrir átökum milli lögreglunnar og lítils hóps óþekktra manna sem ruddust inn á RG Kar-sjúkrahúsið, þar sem læknaneminn var myrtur. Lögreglan beitti táragasi til að sporna við óeirðunum. 

Stjórnmálamenn voru beðnir um að taka ekki þátt og pólitísk merki af öllum toga bönnuð. Þá var fólk af öllum kynjum og hneigðum hvatt til að taka þátt en karlmenn voru einnig velkomnir sem stuðningsmenn og áhorfendur.

Minni mótmæli voru einnig haldin í mörgum öðrum indverskum borgum eins og Delí, Hyderabad, Mumbai og Pune.

Sjónarvottur kveðst aldrei hafa séð neitt í líkindum við mótmæli …
Sjónarvottur kveðst aldrei hafa séð neitt í líkindum við mótmæli gærkvöldsins á Indlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert