Harmar „andstyggileg tímamót“ í stríðinu

Volker Turk.
Volker Turk. AFP/Fabrice Coffrini

Æðsti yf­ir­maður mann­rétt­inda­mála hjá Sam­einuðu þjóðunum, Volker Turk, harmar þau „andstyggilegu tímamót“ að nú hafa yfir 40.000 Palestínumenn verið drepnir í innrás Ísraelshers á Gasa sem staðið hefur yfir í 10 mánuði.

Í yfirlýsingu sem Turk sendi frá sér í dag kenndi hann Ísrael um hækkandi fjölda látinna á Gasa og talaði um að her landsins væri að brjóta „stríðsreglur“.

Heilbrigðisráðuneytið á Gasa sem er undir stjórn Hamas gaf í dag út að fjöldi látinna af völdum átakanna hefði náð að minnsta kosti 40.005. Þar að auki hafa 92.401 særst.

Fylgja ekki stríðsreglum

„Dagurinn í dag markar andstyggileg tímamót í heiminum,“ sagði Turk í yfirlýsingunni.

Þá tók hann fram að flestir hinna látnu væri konur og börn og sagði að ástandið væri að miklu leiti til vegna þess að Ísraelsher hefur ekki fylgt „stríðsreglum“.

„Umfang eyðileggingar ísraelska hersins á heimilum, sjúkrahúsum, skólum og tilbeiðslustöðum er virkilega átakanlegt,“ sagði Turk.

Hafa skjalfest alvarleg brot

Þá sagði hann að mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna sem hann leiðir hafi skjalfest „alvarleg brot“ á alþjóðlegum mannúðarlögum, bæði að hálfu ísraelska hersins og vopnaðra palestínskra hópa, þar á meðal Hamas.

Að lokum ítrekaði Turk kröfu um tafarlaust vopnahlé og að ísraelskir gíslar sem eru í haldi á Gasa verði látnir lausir.

Viðræður um vopnahlé hófust að nýju í Katar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert